Árið 1995 í Reykjavík

2. landsmót Íslenskra kvennakóra var haldið í Reykjavík 23. til 25. júní 1995


Staðsetning

Miðstöð mótsins var í húsnæði Kvennakórs Reykjavíkur að Ægisgötu 7.
Einnig var æft í Melaskóla og Hagaskóla.

Mótshaldarar

Kvennakór Reykjavíkur sá um mótið en stjórn kórsins sá um allan undirbúning.
Í stjórn Kvennakórs Reykjavíkur voru á þessum tíma þær:
Rannveig Pálsdóttir, formaður
Ágústa Jóhannsdóttir, ritari
Hallveig Andrésdóttir, gjaldkeri
Margrét Á Halldórsdóttir, meðstjórnandi
Sigríður Helga Sigurjónsdóttir, meðstjórnandi.

Listrænn stjórnandi mótsins var Margrét J. Pálmadóttir.

Mótsgestir

Ellefu kórar víðs vegar af landinu tóku þátt í landsmótinu:
Kvennakór Hreyfils
Kvennakór Reykjavíkur
Kvennakór SFR (Starfsmannafélag ríkisstofnana)
Kvennakór Siglufjarðar
Kvannakór Suðurnesja
Kvennakórinn Freyjur
Kvennakórinn Lissý
Kvennakórinn Ljósbrá
Kvennakórinn Seljurnar
Kvennakórinn Ymur
Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur

Fjöldi mótsgesta

200 konur tóku þátt í mótinu

Nánar um mótsgesti

Kvennakórinn Seljurnar var stofnaður í maí 1991 og starfar innan Kvenfélags Seljakirkju. Félagar eru 30. Stjórnandi er Kristín Pjetursdóttir, raddþjálfari er Sigríður Gröndal og undirleikari Daníe Arason. Kórinn hefur haldið tónleika, einn og með öðrum kórum, nú seinast í Seljakirkju.

Kvennakór Reykjavíkur var formlega stofnaður 8. maí 1993, eftir 3 mánaðar undirbúningsstarf. Félagar eru 120. Stjórnandi er Margrét J. Pálmadóttir, raddþjálfari Björk Jónsdóttir og undirleikari Svana Víkingsdóttir. Kórinn heldur árlega vor- og jólatónleika auk minni tónleika. Söngferð var farin á kvennaráðstefnuna Nordisk Forum 1994. Kórinn hefur sungið í útvarpi og sjónvarpi og við ýmis tilefni, nú seinast á Austurvelli 17. júní.

Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur verður formlega stofnuð í haust við samruna gospelhóps og skemmtikórs. Reiknað er með að félagar verði um 70. Stjórnandi verður Jóhanna V. Þórhallsdóttir og undirleikari Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Gospelhópurinn hefur haldið sjálfstæða tónleika og sungið með Kvennakórnum á vortónleikum. Báðir hóparnir hafa komið fram á samkomum innan kórsins.

Opinn kór Kvennakórs Reykjavíkur var stofnaður í tilefni kvennakóramótsins og er fyrir konur sem ekki eru í kórastarfi eða starfa í blönduðum kórum. Við bjóðum þær hjartanlega velkomnar.

Kvennakór Hreyfils var stofnaður 1993. Félagafjöldi er 27. Stjórnandi er Sigurbjörg Hólmgeirsdóttir, raddþjálfari Sigurður Bragason og Daníel Arason er undirleikari. Kórinn hefur haldið sjálfstæða tónleika og tekið þátt í kóramótinu Tónar á vegum Sambands alþýðukóra.

Kvennakórinn Ymur Akranesi var stofnaður í febrúar 1995. Félagar eru um 60. Stjórnandi er Dóra Líndal Hjartardóttir og undirleikari Bryndís Bragadóttir. Kórinn hefur sungið á tónleikum í heimabyggð.

Kvennakór Suðurnesja var stofnaður 22. febrúar 1968 og hefur starfað með hléum síðan, einn eða í samstarfi við aðra kóra. Félagar eru 40. Stjórnandi er Sigvaldi Kaldalóns, raddþjálfari er Anna Margrét Kaldalóns og undirleikari er Ragnheiður Skúladóttir. Kórinn hefur tekið þátt í alþjóðamóti á Írlandi og fór í tónleikaferð til Kanada 1977. Kórinn tók þátt í 1. landsmóti kvennakóra sem haldið var 1992. Kórinn hefur haldið tónleika reglulega síðustu ár.

Kvennakór Siglufjarðar var stofnaður árið 1979. Félagar eru 27. Stjórnandi og undirleikari er Elías Þorvaldsson. Kórinn syngur á samkomum í bæjarfélaginu og heldur vortónleika, oftast 20. maí á afmæli Siglufjarðarbæjar.

Kvennakórinn Lissý var stofnaður árið 1985 í tilefni af 80 ára afmælis Kvenfélagssambands Suður-Þingeyinga. Félagar eru 40. Stjórnandi er Hólmfríður Benedikstdóttir og undirleikari Helga Bryndís Magnúsdóttir. Kórinn heldur venjulega tónleika vor og haust. Kórinn fór í söngferð til Reykjavíkur 1990, til Þýskalands 1991 og um norðurland 1994. Haustið 1992 söng kórinn inn á geisladiskinn “Láttu rætast draum”.

Kvennakórinn Ljósbrá var stofnaður í febrúar 1989 og starfaði fyrstu tvö árin sem kvennakór innan kirkjukórs Fljótshlíðar. Félagar eru milli 30-40. Stjórnandi er Stefán Þorleifsson og undirleikari Anna Magnúsdóttir. Kórinn hefur sungið við fjölmörg tækifæri innan héraðs.

Kvennakórinn Freyjur í Borgarfirði var stofnaður 1990. Félagar eru 30-35. Stjórnandi er Bjarni Guðráðsson og undirleikari Steinunn Árnadóttir. Kórinn heldur tónleika á síðasta vetrardag og einnig syngur hann við ýmis tækifæri innan sveitar. Kórinn hefur farið í tónleikaferðir innanlands og tekið á móti kórum heima fyrir.

Kvennakór SFR (Starfsmannafélags Ríkisstofnana) var stofnaður haustið 1991. Félagar eru 25. Stjórnandi og undirleikari er Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Kórinn hefur sungið á hinum ýmsu stofnunum og tekið þátt í kóramótinu Tónar á vegum Sambands alþýðukóra.

Mótstjóri og listrænn stjórnandi

 Rannveig Pálsdóttir formaður Kvennakórs Reykjavíkur var mótstjóri og 

Margrét J. Pálmadóttir stjórnandi Kvennakórs Reykjavíkur var listrænn stjórnandi mótsins.

Dagskrá

Föstudaginn 23. júní
Allir þátttakendur hittust í húsnæði Kvennakórs Reykjavíkur að Ægisgötu 7 kl. 18, þar sem Rannveig Pálsdóttir, formaður kórsins, setti mótið með örstuttri ræðu. Síðan æfðu allar saman sameiginlegu lögin úr nótnaheftinu. Þetta voru lögin Summertime, Climb every mountain, Exodus og Joshua úr A hluta, Betlikerlingin, Kvennaslagur, Vem kan segla og Nina Nana úr B hluta og Ave Maria og Ahi, che ques’ úr C hluta.
Hlé var gert um kl. 20 og var þá boðið upp á léttar kaffiveitingar. Margar konur áttu þá enn eftir að greiða þátttökugjöld og var hafist handa við innheimtu.
Þá var skipt í raddir og haldið áfram að æfa sameiginlegu lögin Búðarvísur, Vökuró, Fjær er hann ennþá og Lippen schweigen úr B hlutanur og Ave Maria úr C hluta. Þurftu konur að bera með sér stóla milli sala í æfingahúsinu.
Samæfing allra radda var svo kl. 22. Þrátt fyrir langan dag héldu stjórnendur og leiðbeinendur fund að lokinni æfingu til að ákveða efnisskrá lokatónleika.

Laugardaginn 24. júní
Æfingar í hópum hófust kl. 9 um morguninn. Hópur A æfði í Hagaskóla undir stjórn Aðalheiðar, Jóhönnu og Kristínar. Hópur B æfði á Ægisgötunni undir stjórn Guðbjargar, Margrétar og Sigvalda. Hópur C æfði í Melaskóla undir stjórn Dóru, Helgu Bryndísar og Hólmfríðar.
Æft var til hádegis en þá var gengið niður á Ingólfstorg þar sem hópurinn allur stillti sér upp og hélt 40 mínútna tónleika.

Strætisvagnar voru mættir við Ingólfstorg að tónleikum loknum og óku þeir konum sem þiggja vildu boð Reykjavíkurborgar um sundprett inn í Laugardalslaug. Þeim var síðan skilað niður í bæ aftur klukkutíma síðar. Frjáls tími var til kl. 16 og gátu konur vappað um bæinn og nýtt sér afsláttartilboð verslana og veitingastaða í tilefni af mótinu.
Samæfing hófst á Ægisgötunni kl. 16 og stóð til kl. 19. Þá máttu óbreyttar hverfa á vit ævintýra kvöldsins á götum og veitingahúsum borgarinnar, en ábyrgir stjórnendur setust á fund til að ræða framtíð kvennakóramóta á landinu.

Sunnudaginn 25. júní
Æfingar hófust kl. 9:30. Hópar A og B hittust á Ægisgötunni en hópur C mætti í Seltjarnarneskirkju þar sem hann söng við messu eftir æfingu.
Um hádegið hittust allar í Borgarleikhúsinu og fengu léttar veitingar. Kl. 13 var mæting á sviði í kórbúningum og æft í tæpann klukkutíma. Eftir það gátu konur lagt síðustu hönd á snyrtinguna áður en opin æfing hófst kl. 14, sem stóð í 80 mínútur. Síðan var hvílst til kl. 16 en þá hófust tónleikar sem stóðu hlélaust í 75 mínútur. Höfðu konur þá staðið á sviði nær linnulaust í rúma 4 klukkustundir. Lokahóf mótsins var haldið í andyri Borgarleikhússins í kjölfar tónleikanna. Þar voru tilbúin veisluborð með afar fallegum og freistandi mat, en mörgum þótti kosturinn naumt skammtaður.

Námskeið og leiðbeinendur

Kórunum var skipt í þrjá hópa sem æfðu hver sína efnisskrá:

Hópur A æfði negrasálma og lög úr söngleikjum.
Leiðbeinendur voru þau: Aðalheiður Þorsteinsdóttir, Jóhanna Þórhallsdóttir og Kristín Pjetursdóttir.

Hópur B æfði íslensk og erlend lög.
Leiðbeinendur voru þær: Guðbjörg Sigurjónsdóttir, Margrét J. Pálmadóttir og Sigvaldi Kaldalóns.

Hópur C æfði kirkjutónlist og madrigala.
Leiðbeinendur voru þær: Dóra Líndal Hjartardóttir, Helga Bryndís Magnúsdóttir og Hólmfríður Benediktsdóttir

Einnig æfðu allir hóparnir sömu 15 lögin að hluta úr öllum hópunum.

Landsmótspokar

Konur fengu gjafapoka frá þeim sem styrktu mótið

Útgáfa

Nótnahefti var gefið út í tilefni mótsins og var það notað við æfingar bæði í hópunum og í sameiginlegu efnisskránni. 


Ekkert mótslag var samið.