Sigríður Anna Ellerup, Vox feminae

Kvennakórinn Vox feminae tilnefnir hér með Sigríði Önnu Ellerup, eða Önnu Siggu, til heiðurstilnefningar Gígjunnar.

Anna Sigga var einn af stofnendum Kvennakórs Reykjavíkur og starfaði með kórnum frá stofnun hans í janúar 1993 fram til ársins 2000. Hún var formaður Kvennakórs Reykjavíkur frá 1997 - 1999 og vann að mörgum stórum verkefnum fyrir kórinn. Sem dæmi um verk hennar má nefna að hún vann að útgáfu fyrsta geisladisks kórsins, hún stýrði samningagerð við Karlakór Reykjavíkur og Reykjavíkurborg þegar Kvennakór Reykjavíkur fékk styrk til að eignast hluta í sönghúsinu Ými, og sat í undirbúningsnefnd fyrir Norrænt kvennakóramót árið 2000.

Hún gekk til liðs við Vox feminae 1998 og hefur starfað samfellt með kórnum síðan. Hún var formaður Vox feminae frá 2006 til 2012. Hún stýrði á þeim tíma afar metnaðarfullu starfi Vox feminae þar sem ráðist var í stór verkefni, svo sem útgáfu tveggja geisladiska, farið var í tónleikaferðir innanlands og utan, tónskáld fengin til að semja verk fyrir kórinn og ráðist í útgáfu ljósmynda- og sögubókar Vox feminae “da capo” í tilefni af 15 ára afmæli kórsins.

Anna Sigga var annar tveggja ritstjóra bókarinnar “da capo” þar sem saga kórsins er rakin í máli og myndum auk hugleiðinga kórfélaga um þýðingu söngs í lífi þeirra. Bókin er því mikilvæg heimild um íslenskan kvennakór sem stofnaður var á síðustu öld og á án efa eftir að varpa ljósi á þann raunveruleika sem við nú búum við.

Anna Sigga hefur skipulagt og tekið að sér fararstjórn í flestöllum utanlandsferðum Vox feminae frá upphafi og einnig Kvennakórs Reykjavíkur meðan hún starfaði þar. Einnig hefur hún verið fararstjóri í árlegum ferðum sönghússins Domus Vox til Ítalíu. Á Ítalíu hefur hún einnig aðstoðað aðra kóra eins og Stúlknakór Grindavíkur og Kvennakór Hafnarfjarðar á þeirra tónleikaferðum. Í öllum þessum ferðum hefur hún unnið fórnfúst starf, miðlað fróðleik og haldið utan um farþega af öryggi og umhyggju.

Anna Sigga hefur ávallt sýnt mjög mikinn metnað fyrir hönd starfs kvennakóra á Íslandi og hefur alltaf viljað veg þess sem mestan. Félagar í Vox feminae og öðrum kvenna- og stúlknakórum eiga henni mikið að þakka vegna hennar óeigingjarna starfs. Verkefni kórsins hafa ávallt verið í forgangi hjá henni og hún hefur verið öðrum kórfélögum bæði hvatning og fyrirmynd hvað varðar ástundun, þátttöku í uppbyggingu innra starfs með þátttöku í óteljandi nefndum og uppbyggingu á ímynd kórsins út á við.

Anna Sigga var fulltrúi Vox feminae í afmælisnefnd vegna 20 ára afmælis Kvennakórs Reykjavíkur árið 2013 þar sem þekking hennar á sögu kórsins frá stofnun hans skipti miklu máli, sem og víðsýni hennar.

Fyrst og fremst hefur Anna Sigga þó verið ótvíræður leiðtogi okkar kórfélaganna hin síðustu ár, þar sem hún hefur leitt hópinn með ljúfri lund og brosi á vör. Hún er glæsileg fyrirmynd annarra kórfélaga þegar kemur að elju, áhuga og metnaði fyrir hönd kórsins.

Það er sannfæring félaga í Vox feminae að engin væri betur að heiðursverðlaunum Gígjunnar komin en Sigríður Anna Ellerup.

Mynd: Sigríður Anna Ellerup með heiðursviðurkenninguna.