Gígjan Lógó
 
Skođanakönnun
Hvađa rödd syngur ţú í ţínum kór?


02.05.2017 - Vortónleikar Kvennakórs Hafnarfjarđar

Kvennakór Hafnarfjarðar heldur sína árlegu vortónleika í Hásölum við Strandgötu laugardaginn 13. maí kl. 15:00.

Á tónleikunum  fá gestir að heyra mörg þeirra laga sem kórkonur hafa æft fyrir söngferðalag sem farið verður til Ítalíu í júní næst komandi en þangað er ferðinni heitið til þess að syngja í tveimur borgum í Suður-Týról og njóta um leið menningar og stórbrotins landslags í ítölsku Ölpunum.

Í þeim hluta Ítalíu sem Kvennakór Hafnarfjarðar sækir heim er töluð þýska jafnt sem ítalska og það er skemmtilegt að geta þess að kórinn var svo heppinn að fá í hendur fallega, þýska þýðingu af Maístjörnu Halldórs Laxness. Hún verður að sjálfsögðu með í farteskinu til Ítalíu og á vortónleikunum í Hásölum mun kórinn frumflytja fyrsta erindi hennar.

Það verður komið víða við í lagavali á vortónleikunum og eins og oft áður er það ástin og kærleikurinn sem er kórkonum ofarlega í huga. Lagavalið er fjölbreytt, má þar nefna tónlist frá endurreisnartímabilinu, íslensk og norræn sönglög og gospelsöngva. Kórkonur létu ekki hjá líða að spreyta sig aðeins á ítölskunni fyrir Ítalíuferðina og að sjálfsögðu verða nokkur ítölsk lög á efnisskránni.

Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir og píanóleikari er Antonía Hevesi.

Miðar verða seldir á 2.500 kr. og fer miðasala fram hjá kórkonum og við innganginn. Einnig má senda tölvupóst á kvennakor.hafnarfjardar@gmail.com eða skilaboð á Facebook síðu kórsins.

Frítt er fyrir börn 12 ára og yngri.

Tónleikagestum verður boðið að þiggja kaffi og konfekt í tónleikahléi.

« Til baka

Kíktu á okkur á Facebook