Gígjan landssamband íslenskra kvennakóra var stofnað 5. apríl 2003. Markmið með stofnun sambandsins er
að efla starfsemi og samstarf kvennakóra. Einnig að efla samskipti við kvennakóra erlendis og safna og
 miðla upplýsingum um starfsemi og sögu íslenskra kvennakóra.

Stjórn Gígjunnar, í samráði við Kvennakór Reykjavíkur, hefur ákveðið að fresta fyrirhuguðu landsmóti, sem átti að halda í september 2021 (og þar áður í maí 2020) fram til vorsins 2023.

Ástæðurnar fyrir þessu eru margar og spilar óvissa vegna Covid-19 stóran sess í þessari ákvörðun. Kórastarf hefur verið í algjöru lágmarki undanfarið ár. Kórar hafa ekki náð að hittast og æfa saman í marga mánuði, fjárhagsstaða er erfið og óvissan vegna bólusetninga er alger. Kórar hafa nóg með að halda starfinu gangandi þannig að hægt sé að stefna á að halda tónleika og annað án þess að álag vegna æfinga við landsmót sé á það bætandi.

Stjórn Gígjunnar - ásamt landsmótsnefnd Kvennakórs Reykjavíkur - telur að ánægjan af því að mæta á landsmót sé í lágmarki við þessar aðstæður og erfitt fyrir kóra að sýna sitt besta á þannig móti og því hefur þessi ákvörðun verið tekin.

Landsmótsnefnd hefur nú þegar hafið þá vinnu að finna mótinu stað og tíma í maí 2023 í Reykjavík.
Tímasetning, upplýsingar vegna skráningu, kostnaður og allt þetta verður sent til ykkar þegar nær dregur.
Einnig verða upplýsingar um smiðjur sendar til ykkar í tíma.

Varðandi þau lög sem nú þegar hefur verið dreift til ykkar, þá er það alls óvíst að þau verða sungin á mótinu 2023. Ef einhver vill fá að nota þau lög og flytja á sínum tónleikum, þá biðjum við ykkur vinsamlega að vera í samþykki við smiðjustjórana sem lögðu til lögin og fá þeirra samþykki.

Ekki er heimilt að flytja landsmótslagið á tónleikum fyrr en eftir landsmót 2023.

Við vonum að þessi ákvörðun komi ykkur ekki illa, það var erfitt að þurfa að taka hana því að við sem höfum áður farið með kórnum okkar á landsmót, vitum hvað það er skemmtilegt og gefandi að mæta á svona mót. En að sama skapi var hún líka auðveld því það er ekki skemmtileg tilhugsun að þurfa að mæta á landsmót þar sem Covid-19 skýið skyggir á gleðina.

Árið 2023 verður Gígjan 20 ára og mótshaldarinn, Kvennakór Reykjavíkur verður 30 ára. Það verður því ærið tilefni til að halda skemmtilegt, stórkostlegt og langþráð landsmót Gígjunnar í maí 2023 og við sjáumst vonandi allar þá.

Fyrir hönd stjórnar Gígjunnar,

Kolbrún Halldórsdóttir formaður

Lesa meira
Með hliðsjón af gildandi reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum og að höfðu samráði við embætti landlæknis leggur Gígjan til eftirfarandi verklag við æfingar og samveru kóra til að fylgja megi til hlítar gildandi kröfum um sóttvarnir:

  1. Ráðlagt er að á kóræfingum sé fjarlægð milli syngjandi kvenna eigi minni en 1 metri og helst meiri ef unnt er.
  2. Til að tryggja megi sem best góða fjarlægð milli kvenna þarf að taka mið af æfingaaðstöðu hvers kórs og jafnvel skipta kórum upp á æfingum ef stærð húsnæðis krefst þess. Til dæmis er hægt að skipta æfingatíma milli radda eða blanda röddum í hópa og miða við þann fjölda sem æfingahúsnæði og fjarlægðarmörk ráða við. Mælst er til þess að hópar haldist þeir sömu meðan þessi staða varir svo ekki sé verið að blanda hópum saman meira en nauðsynlegt er.
  3. Mikilvægt er að konur haldi sig heima við ef þær finna fyrir flensueinkennum (hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta).
  4. Nauðsynlegt er að sameiginlegir snertifletir í æfingahúsnæði séu vel sótthreinsaðir fyrir og eftir notkun, til dæmis stólarmar, borð og hurðahúnar. Tryggja þarf að salernisaðstaða sé einnig sótthreinsuð.
  5. Afar mikilvægt er að huga vel að persónulegum sóttvörnum þar með talið nálægðartakmörkunum, hreinsun handa og að sýna tillitsemi við hósta og hnerra og nota olnbogabót en ekki hendur.
  6. Ekki er sérstaklega mælst til þess að nota grímur á æfingum og hafa ber í huga að grímunotkun kemur ekki í staðinn fyrir góða fjarlægð milli söngkvenna.
Við í stjórn Gígjunnar hvetjum kóra til að hefja æfingar en gæta ávallt ýtrustu sóttvarna. Söngur er heilsubætandi og mikilvægt er að kórar hlúi að kórstarfinu. Þessar leiðbeiningar eru til viðmiðunar miðað við núgildandi sóttvarnareglur stjórnvalda en kórum er í sjálfsvald sett að ganga lengra í sóttvörnum. Mikilvægt er að endurskoða kórstarfið reglulega með hliðsjón af gildandi reglum hverju sinni og munum við í stjórn leitast við að vera kórum til leiðbeiningar eftir því sem aðstæður breytast.

Gangi ykkur vel og knús á línuna

Kveðja, Kolla - formaður
Lesa meira
Kvennakór Reykjavíkur hefur, í samráði við stjórn Gígjunnar, tekið þá ákvörðun að landsmót Gígjunnar, sem til stóð að halda í maí 2020 en varð að fresta vegna Covid-19, verði haldið dagana 16.-18. september 2021.
Því miður verður ekki hægt að halda mótið í maí 2021 eins og áður var stefnt að. Ástæðan er fyrst og fremst sú að Harpa var ekki laus á því tímabili sem stefnt var að. Landsmótsnefnd vill alls ekki ekki sleppa því tækifæri að bjóða þátttakendum að halda tónleika í glæsilegasta tónleikasal landsins, Eldborg og því var tekin sú ákvörðun að færa mótið fram á haustið. Landsmótsnefnd og stjórn Gígjunnar vonar að kórkonur Gígjunnar taki þessari ákvörðun fagnandi og vonar jafnframt að jafnvel enn fleiri konur skrái sig á mótið í september 2021 en höfðu skráð sig á mótið sem átti að halda í maí 2020.
Að því sögðu þá óskar landsmótsnefnd eftir því að kórar sendi inn forskráningu á mótið á netfangið landsmot2020@kvennakorinn.is með áætluðum fjölda þátttakenda fyrir 1.okt 2020 svo undirbúningur verði sem skilvirkastur.

Landsmótsnefnd hefur sett stefnuna á að áður útgefnar smiðjur og smiðjustjórar verði eins og áður hefur verið kynnt en þó með fyrirvara um breytingar. Sameiginleg lög verða þau sömu.

Einnig er stefnt á að áður útgefin dagskrá verði sú sama en staðsetning mótsins mun færast í Laugardalshöll og nágrenni þar sem í boði er frábær aðstaða í gullfallegum og gróðursælum Laugardalnum ásamt úrvali á gistingu enda mikið úrval hótela og gistiheimila í næsta nágrenni.
Óskað er eftir skráningum fyrir 1 febrúar 2021 og greiðslu staðfestingagjalds en nánari upplýsingar um það allt saman verða sendar þegar kórastarf er hafið í haust.

Við tökum fagnandi öllum ábendingum sem þið kunnið að hafa á netfangið landsmot2020@kvennakorinn.is og hlökkum til að taka á móti ykkur öllum 16.september 2021.

Sumarkveðja :)

Stjórn Gígjunnar og Landsmótsnefnd Kvennakórs Reykjavíkur
Lesa meira

Stjórn Gígjunnar hefur, í samráði við landsmótsnefnd Kvennakórs Reykjavíkur, ákveðið að fresta landsmóti Gígjunnar, sem fara átti fram dagana 7. – 9. maí nk. um eitt ár. Mun mótið verða haldið í maí 2021 og stefnan tekin á dagana 6. - 8 maí. Mun landsmótsnefnd leitast við að tryggja að allt verði með sama sniði og með sömu áherslum og nú þegar hefur verið ákveðið og mun staðfest dagsetning verða send út um leið og búið er að tryggja aðstöðu og húsakost vegna mótsins.

Með þessu vilja Gígjan og Kvennakór Reykjavíkur eyða allri óvissu vegna þessarar fordæmalausu stöðu sem uppi er í samfélaginu. Með því að fresta mótinu um heilt ár ætti kórum að gefast nægur tími til skipulagningar, vorið er besti tíminn í kórstarfi til að mæta á landsmót þar sem kórar hafa haft allan veturinn á undan til æfinga og undirbúnings.
Einnig leggur landsmótsnefnd Kvennakórs Reykjavíkur mikla áherslu á að halda eins glæsilegt mót og hægt er og með því að fresta mótinu um heilt ár gefst nefndinni aukið svigrúm til að tryggja að öll aðstaða og aðföng verði sem allra best.

Öllum kórum sem höfðu skráð sig á landsmót í maí 2020 og greitt staðfestingargjald, stendur til boða að fá gjaldið endurgreitt en einnig geta kórar geymt greiðsluna sem staðfestingu fyrir þátttöku á mótið í maí 2021. Það er hverjum kór í sjálfsvald sett hvernig þeir kjósa að hafa það. Ef kórar kjósa að geyma greiðsluna og fjöldi þátttakenda frá hverjum kór breytist, þá verður það gert upp þegar nær dregur. Ef kórar kjósa endurgreiðslu, þá er best að senda póst á landsmot2020@kvennakorinn.is og landsmótsnefnd endurgreiðir um hæl.
Breytt dagsetning vegna lokagreiðslu verður send út síðar.

Strax eftir helgi hefst vinna hjá landsmótsnefnd Kvennakórs Reykjavíkur við það að endurbóka allt það sem tilheyrir svona stóru móti og verður staðfest dagsetning fyrir landsmót í maí 2021 send út eins fljótt og mögulegt er.

Ég veit að þið, kæru kórkonur, sýnið þessu skilning og vona að þið mætið allar sem ein með gleðina að vopni á landsmót Gígjunnar í Reykjavík í maí 2021. Ef þið hafið einhverjar athugasemdir, spurningar, ábendingar, eða hvað sem er þá tekur landsmótsnefnd fagnandi á móti þeim í gegnum netfangið landsmot2020@kvennakorinn.is

Ég óska ykkur alls hins besta í ykkar kórstarfi, hvernig sem því mun verða háttað á komandi vikum og mánuðum og sendi rafrænt knús á línuna.

Fh. Stjórnar Gígjunnar og landsmótsnefndar Kvennakórs Reykjavíkur,
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Gígjunnar

Lesa meira