30.11.2008 - KVENNAKÓRAR LANDSINS HEIÐRA JÓN ÁSGEIRSSON TÓNSKÁLD Á ÁTTRÆÐISAFMÆLI HANS

Fyrsta sunnudag í aðventu, 30. nóvember, munu nokkrir kvennakórar víðsvegar af landinu frumflytja jólalag Jóns Ásgeirssonar
Ég heyrði þau nálgast. Á síðasta ári barst stjórn Gígjunnar erindi frá Sigurbjörgu Aðalsteinsdóttur í Kvennakórnum Vox feminae.

Hún lagði það til að Gígjan léti semja fyrir sig jólalag sem aðildarkórar sambandsins gætu fengið í hendurnar á sama tíma, æft og frumflutt sama daginn.
Stjórnin ákvað að framkvæma hugmyndina og hafði samband við Jón Ásgeirsson tónskáld sem tók glaður að sér verkið. Jón varð áttræður 11. október síðast liðinn og verður þessi frumflutningur á jólalaginu hans því honum til heiðurs á afmælisári hans.

Tónverkasjóður Gígjunnar var stofnaður á aðalfundi sambandsins í október. Markmið og tilgangur sjóðsins er að efla og styrkja íslenska kvennakóra. Til að ná þessu markmiði mun Tónverkasjóður Gígjunnar fá tónskáld til að semja tónverk fyrir kvennakóra landsins. Jólalag Jóns Ásgeirssonar er fyrsta verkið sem Tónverkasjóðurinn hefur kostað.