Það eru tónleikar framundan!
Kvennakór Reykjavíkur ætlar að fara um víðan völl á vortónleikum sínum þann 18. maí í Guðríðarkirkju. Eitt af því skemmtilegasta sem kórinn gerir er að takast á við allskonar tónlist og það mun hann sannarlega gera þetta vorið. Við reynum okkur við smellna þýðingu Þórarins Eldjárns á ABBA lagi úr Mamma Mia, Bítlarnir leggja til nokkur lög og aðdáendur Prúðuleikaranna verða ekki fyrir vonbrigðum. Við dustum rykið af óborganlegu skúringanúmeri og tökumst á við krefjandi klapp í White Whinter Hymnal. Ungversk, bandarísk, norsk, bresk og að sjálfsögðu íslensk lög eru á dagskránni og eru þau hvert öðru fallegra. Efnisskráin er í ætt við íslenskt sumarveður svo gestir ættu að vera við öllu búnir, með sól í hjarta.
Stjórnandi er Ágota Joó.
Um undirleik sjá Birgir Bragason á Bassa, Erik Robert Qvick á slagverk og Vilberg Viggósson á píanó.
Miðaverð: 3.000 kr í forsölu, 3.500 kr við innganginn.
Miðar fást hjá kórkonum eða með því að senda tölvupóst á netfangið postur@kvennakorinn.is
Kvennakór Hafnarfjarðar heldur sína árlegu vortónleika í Hásölum við Strandgötu laugardaginn 13. maí kl. 15:00.
Á tónleikunum fá gestir að heyra mörg þeirra laga sem kórkonur hafa æft fyrir söngferðalag sem farið verður til Ítalíu í júní næst komandi en þangað er ferðinni heitið til þess að syngja í tveimur borgum í Suður-Týról og njóta um leið menningar og stórbrotins landslags í ítölsku Ölpunum.
Í þeim hluta Ítalíu sem Kvennakór Hafnarfjarðar sækir heim er töluð þýska jafnt sem ítalska og það er skemmtilegt að geta þess að kórinn var svo heppinn að fá í hendur fallega, þýska þýðingu af Maístjörnu Halldórs Laxness. Hún verður að sjálfsögðu með í farteskinu til Ítalíu og á vortónleikunum í Hásölum mun kórinn frumflytja fyrsta erindi hennar.
Það verður komið víða við í lagavali á vortónleikunum og eins og oft áður er það ástin og kærleikurinn sem er kórkonum ofarlega í huga. Lagavalið er fjölbreytt, má þar nefna tónlist frá endurreisnartímabilinu, íslensk og norræn sönglög og gospelsöngva. Kórkonur létu ekki hjá líða að spreyta sig aðeins á ítölskunni fyrir Ítalíuferðina og að sjálfsögðu verða nokkur ítölsk lög á efnisskránni.
Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir og píanóleikari er Antonía Hevesi.
Miðar verða seldir á 2.500 kr. og fer miðasala fram hjá kórkonum og við innganginn. Einnig má senda tölvupóst á kvennakor.hafnarfjardar@gmail.com eða skilaboð á Facebook síðu kórsins.
Frítt er fyrir börn 12 ára og yngri.
Tónleikagestum verður boðið að þiggja kaffi og konfekt í tónleikahléi.
Vortónleikar Jórukórsins 2017 verða haldnir í Skálholtsdómkirkju þann 3. maí kl. 20.00 og Selfosskirkju þann 7. maí kl. 20.00.
Í ár er áhersla lögð á íslensk ljóð og lög, bæði gömul og ný og sum alveg splunkuný. Stefán Þorleifsson kórstjóri hefur samið lög við ljóð eftir skáldkonurnar Gerði Kristnýju, Elísabetu Jökulsdóttur og Evu Rún Snorradóttur. Ljóð skáldkvennanna þriggja fjalla meðal annars um Bravóblöð, auglýsingabæklinga og kramin kattarhræ, en einnig dýpri leyndarmál, kleinur og pilluát. Efnisskráin í ár er mjög metnaðarfull og auk fyrrnefndra laga verða á efnisskrá gamalkunn þjóðlög og íslensk dægurlög eftir Ásgeir Trausta, Gunnar Þórðarson og Björk, svo einhver séu nefnd.
Mannauður kórsins verður nýttur til fullls, því ekki er nóg með að Stefán útsetji og semji lög sérstaklega fyrir kórinn, heldur eru einsöngvarar og hljóðfæraleikarar einnig úr röðum kórsins, ásamt Ingibjörgu Erlingsdóttur á kontrabassa.
Það er því með sérstakri tilhlökkun og gleði sem Jórukórinn býður bæjarbúa og nærsveitarfólk velkomið á vortónleika Jórukórsins 2017 og vonast til að sjá sem flesta. Miðasala við innganginn og í forsölu hjá kórkonum.
Með vorkveðju
Jórukórinn
Vortónleikar Kvennakórsins Ljósbrár ásamt Guðrúnu Gunnarsdóttur.
Guðríðarkirkja Grafarholti fimmtudagskvöldið 27. apríl kl. 20:00
Hvoll, Hvolsvelli föstudagskvöldið 28. apríl kl. 20:00.
Eftir vel heppnaða utanlandsferð í vor urðum við Ljósbrárkonur heimakærar og er því lagavalið frekar þjóðlegt að þessu sinni.
Aðaláhersla okkar á þessum tónleikum er tileinkuð hinni dáðu söngkonu Ellý Vilhjálms. Ellý heillaði flesta með söng sínum og heillandi framkomu. Við fengum aðra dáða söngkonu til liðs við okkur en hún hefur heiðrað minningu Ellýar og sungið lög hennar eins og henni einni er lagið. Þessi söngkona er engin önnur en Guðrún Gunnarsdóttir og erum við Ljósbrárkonur upp með okkur að hafa fengið hana til liðs við okkur.
Guðmundur Eiríksson mun leiða okkur í söng líkt og áður ásamt því að spila undir á píanó. Smári Kristjánsson spilar á bassa, Rúnar Þór Guðmundsson á trommur, Guri Hilstad Olason, SIlvia Rossel og Aníta Þorgerður Tryggvadóttir á blásturshljóðfæri.
Guðríðarkirkja fimmtudaginn 27. apríl kl. 20:00
Hvollinn Hvolsvelli föstudaginn 28. apríl kl. 20:00
Verð 3500 kr
Eldri fréttir
-
Landsmóti frestað til 2023
-
Verklagsreglur um æfingafyrirkomulag á tímum samkomutakmarkana fyrir kvennakóra innan Gígjunnar
-
Landsmót Gígjunnar haldið 16-18 sept 2021
-
Landsmóti Gígjunnar frestað
-
Þorravaka Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólakveðja
-
Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar
-
Aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólatónleikar Kvennakórs Kópavogs
-
Jólatónleikar Léttsveitarinnar
-
Kvenna megin
-
Aðalfundur Gígjunnar 2019
-
Mæðradagstónleikar Kvennakórs Akureyrar
-
Dívur – vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja
-
Vortónleikar Kvennakórs Kópavogs
-
Skrýtið og skemmtilegt - Heklurnar